• Elísabet Margeirsdóttir

Ultra Trail Mt. Fuji 2014Ég vaknaði snemma um morguninn á hlaupadaginn. Hafði stillt klukkuna á 9:48 og var ákveðin í því að liggja í bælinu til 10. Náði góðum svefni í rúmlega 7 tíma ásamt smá kúri. Ég hafði reynt að gera allt klárt fyrir hlaup fyrir löngu síðan. Hins vegar eru alltaf hundrað hlutir sem þarf að græja með styttri fyrirvara. Drop pokarnir sem fóru með Avid fólkinu voru að mestu tilbúnir en þá reyndi ég að nýta eins vel og ég gat miðað við verstu mögulegu aðstæður og uppákomur í hlaupinu. Mataræðið var mjög gott en allan tímann í Japan hafði ég fengið mér hafragraut í morgunmat ásamt fræjum og hnetum sem auðvelt er að útbúa með heitu vatni. Við hliðina á hótelinu okkar var líka ótrúlegur súpermarkaður þar sem hægt að var að kaupa nánast allt. Ég keypti því nóg af vatni, íþróttadrykk, brauð, ávexti, jógúrt og annað þægilegt nasl til að borða daginn fyrir hlaup og á hlaupadaginn.


Spenningurinn fyrir hlaupið hafði verið óbærilegur á köflum en þá kom hugleiðsla og góður tími í undirbúning dagana fyrir hlaup að góðum notum. Í Kyoto fórum við í hugleiðslutíma hjá Búddamunki sem gaf okkur góð ráð. Það nýttist vel dagana fyrir og í hlaupinu sjálfu. Ég fór frekar snemma niður í lobbýið eða rúmlega 10 til að sjá hvað fólk væri komið langt í undirbúningnum. Hlaupið byrjaði kl. 15 seinni partinn og því hafði maður góðan tíma til að gera allt klárt og koma sér í startið. Margir voru strax komnir í hlaupagallann og tilbúnir með drop pokana. Ég gaf mér tíma til að setjast niður og byrja borða morgunmatinn og fara aðeins á netið. Spjallaði í góða stund við Arnór á Skype og Mike sem var líka að fara hlaupa. Allt í einu áttaði ég mig á því að klukkan var að verða 11 og ég þurfi að klára að skila inn drop pokunum. Ég hentist upp og smurði nokkrar samlokur  með  möndlusmjöri og sultu og einnig pestó og hráskinku. Mér finnst gott að hafa til taks bæði eitthvað salt og sætt  sem er auðvelt að tyggja. Einnig fóru í pokana alls konar hlutir eins og: Aukahleðslur fyrir síma og ljós, sjúkradót, aukafatnaður,  gel og fleira.


Mikið var ljúft að koma öllum þessum drop pokum frá og þá gat maður farið að einbeita sér að bakpokanum og hlaupadressinu sem ég myndi byrja að hlaupa í . Það var frekar heitt þennan daginn og því þótti mér lang skynsamlegast að byrja í mjög léttum fötum. Ég sá alls ekki eftir því og endaði á því að hlaupa allt hlaupið í sömu fötunum og sömu sokkunum. Nema í lokinn þurfti ég að fara úr stuttermabol í síðerma treyju og einnig skellti ég mér í þunnar hnésíðar buxur yfir hinar um seinna kvöldið. Ég skipti þó nokkrum sinnum um hanska og buff. Alltaf gott að fara í þurrt ef það er fljótlegt að skipta. Fötin sem ég hljóp í: Compressport underwear, Compressport full socks og stuttermabol. Einnig byrjaði ég með þunnt ennisband frá Cintamani. Ég hljóp fyrstu 105km í Brooks Cascadia en fór síðan yfir í Salomon Speed Cross fyrir tæknilegasta hluta leiðarinnar. Ég notaði Salomon S-lab 12 lítra poka og Petzl Nao ennisljós. Ég var alltaf með ferskt buff á mér og vettlinga.
Jæja, tíminn leið hratt og við ákváðum að vera komin tímanlega að Yagisaka garðinum við Lake Kawaguchiko þar sem startið og expóið var. Avid fólkið var með gistihús þar rétt hjá fyrir okkur hlauparana til að hafa okkur til. Við fengum stæði rétt við hótelið og geymdum þar dót sem við myndum vilja komast í eftir hlaupið. Við tjilluðum aðeins á hótelinu og spjölluðum við hlauparana þar á meðal Fernando frá Mexíkó sem stefndi á að klára á stuttum tíma. Ég borðaði og drakk safa, kaffi, smá hafragraut og japanskt bakkelsi úr hrísgrjónum og baunum. Allt var klárt og líðan frábært. Úthvíld og spennt. Staðráðin í því að njóta hvers augnabliks þessa langa hlaups.Við komum okkur tímanlega í startið og allt í kring var fólk sem við könnuðumst við. Ótrúlega afslappað andrúmsloft miðað við verkefnið sem var framundan hjá okkur öllum. Mikil seremónía byrjaði kl. 14:30 þar sem hlaupastjórinn Tsuyoshi Kaburaki hélt ræðu. Tíminn leið hratt og kynnarnir fóru að telja niður mínúturnar. Við tókum myndir og vídjó og ég tók nokkra djúpa andardrætti. Five, four, three, two, ONE! Búmm! Hlaupið fór rólega af stað. Ég fór þægilega út úr bænum en sá alltaf Sigga á undan. Það var gott að byrja á 5-6 km á sléttu og rólegu hlaupi, en þetta var fyrsta upphitunin. Oft í þessum hlaupum er farið beint í erfitt klifur en þarna fékk maður tíma til að finna grúvið. Fyrsta fjallið var mjög létt, varla fjall, bara löng aflíðandi leið. Síðan tók við þægilegt niðurhlaup á malbiki þar sem var freistandi að blasta niður. Við Siggi fórum hlægilega hægt, eða það fannst okkur og leyfðum öllum að gossa niður á undan. En þetta var okkar taktík að fara rólega af stað og hugsa um fyrstu 100km sem upphitun.


Á fyrstu stöðinni A1 var löng klósettröð því Japanarnir kunnu ekki við að fara út í skóg á meðan margir voru saman í hlaupinu í byrjun. Siggi náði í æðislega núðusúpu handa okkur sem við rétt smökkuðum og síðan héldum við áfram. Það styttist í myrkur og fljótlega vorum við komin með ljósin á kollinn á leiðinni á næsta tind. Þetta var meira alvöru fjall en það fyrsta. Gríðarlega tæknilegt efst uppi og það tók langan tíma að fara niður þar sem ekki hafði teygst mikið á hlaupurum. Þetta var gaman og það var ekkert stress í okkur, nóg eftir.

Það var ágætt að sjá þessa stöð. Reyndar var krökkt af hlaupurum þarna og þá verður pínu stress og maður gleymir því mikilvæga sem þarf að gera, eins og að sækja orku og fylla strax á vökva. En þetta gekk ágætlega, ég greip með mér brauðbollu og banana og við stoppuðum frekar stutt. Leiðin framundan var svipuð og allir í góðum gír. Rolling hills myndi maður kalla þetta. Það var síðan spenningur að komast á A3 því þar biðu fyrstu drop pokarnir okkar. Við vorum snögg á stöðina og Avid fólkið þekkti okkur strax. Í hvern poka hafði ég skrifað skýrar leiðbeiningar um hvað ég þyrfti að gera ásamt hvatningarorðum og stuttri lýsingu á næsta legg. Einnig voru þarna orkugel og barir og einnig dót eins og plástrar og vaselín. Við fórum frekar hratt í gegn því orkan var enn góð og engin svengd en pössuðum að vera með nóg af vökva og borðuðum eitthvað smá japanskt og gott. Ég fór á klósettið sem var við útganginn og fékk að fara á þetta fína vestræna postulín. Þegar ég kom út sá ég Sigga hvergi og í stað þess að fara alla leið til baka í tjaldið þá ákvað ég að fara rólega af stað. Þarna var frekar löng leið á malbiki út úr bænum en ég sá hvergi Sigga. Jæja fínt að setja í góðan og þægilegan gír í myrkrinu. Ég setti smá tónlist í eyrun, bara eitthvað rólegt og naut þess að rúlla. Reyndi einnig að spjalla aðeins við þá enskumælandi sem ég hitti á leiðinni. Þarna var ég farin að taka eftir að ég var hressari en flestir í kringum mig og tók fram úr frekar mörgum hlaupurum. Á leiðinni niður fjallið leyfði ég mönnum að vera fyrir framan mig og jafnvel taka framúr. Þegar brattasta lækkunin var afstaðin fór ég að hlaupa og var ekki lengi að ná þeim sem á undan höfðu farið. Einnig náði ég einni góðri konu sem virtist vera farin að hægja verulega á sér. Þarna hitti einnig par sem hafði hlaupið aðeins samferða mér í byrjun en þau tóku mynd af okkur saman á næstu drykkjarstöð.


Skemmtilegt að koma á A4 og Avid fólkið var eiturhresst og hjálplegt. Þarna fór aðstoðin fram úti svo ég reyndi að flýta mér að fara í þunnan síðerma bol undir þann stutterma. Þar til þarna hafði ég ekkert skipt um föt því veðrið og hitastigið var fullkomið. Ég hljóp á klósettið sem var aðeins út úr stöðinni inni í íþróttahúsi og þegar ég kom til baka var Siggi kominn. Það var ánægjulegt að sameinast á ný og við fórum samferða út af stöðinni en stoppuðum aðeins við og fengum okkur japanskt gourmet hrísgrjónabollur og súpu. Það var engin ástæða til að stressa sig á þessum stoppum, við vorum bara að leggja inn í bankann fyrir seinni hluta hlaupins. Við hlýjuðum okkur aðeins og létum taka eina mynd af okkur áður en við drifum okkur af stað á A5. Frá A4 þurftum við að bera nægilegt magn á geljum því að við myndum ekki fá drop poka fyrir enn í A7 aftur. Ég var aðeins búin að kvíða fyrir þessum legg því hann var langur og hæðóttur en hins vegar fórum við fórum að telja þá hlaupara sem við fórum fram úr á milli drykkjarstöðva.


Það var smá krókur á þessa stöð og því mættum við slatta af hlaupurum sem komu á móti okkur og voru líklega 20-30 mínútum á undan okkur. Við stoppuðum ekkert gríðarlega lengi því það var frekar stutt í næstu stöð. Leiðin framundan breyttist lítið en við vorum ýmist á vegum eða skemmtilegum skógarstígum.Aftur þurftum við að taka stuttan krók af leið í drykkjarstöð og mættum því fólki sem var á undan okkur. Ekki fór á milli mála hvar beygja átti út af leið og voru blikkandi ljós alls staðar. Það voru ekki margir sem við fórum fram hjá og við drifum okkur upp. Stoppuðum mjög stutt því það var ekki langt í næstu stöðvar aftur. Eftir A6 vorum við mest á niðurleið á malbiki og við fórum fram úr ansi mörgum. Ég reyndi að hlaupa eins mikið og ég gat úti við kantinn þar sem var smá gras.


Eftir að hafa hlaupið í dágóðan tíma fórum við að spyrja okkur hversu langt gæti verið í A7. Þar sem vegalengdirnar höfðu ekki alveg staðist samkvæmt korti hlaupsins þá var mjög líklegt að A7 væri amk 5km frá því sem kortið sagði. Við héldum rólega áfram en síðan ákvað ég að athuga málið. Gat verið að við höfðum farið af leið? Það var ómögulegt því við höfðum fylgt merkingum alla leið. Síðan kom í ljós að í svartamyrkrinu höfðum við farið framhjá skilti sem sýndi að við áttum að beygja til vinstri en ekki halda áfram. Við meira að segja eltum hlaupara sem var á leiðinni niður og því var ómögulegt fyrir okkur að sjá eða átta okkur á beygjunni. Engin ljós og enginn starfsmaður að vísa veginn ólíkt því sem hafði verið áður allt hlaupið við drykkjarstöðvarnar. Jæja, þetta var óþægilegt og við að verða búin með vökva og næringu. Við töluðum við góða enskumælandi manneskju frá hlaupinu sem var í sambandi við hlaupastjórann sem gaf okkur leyfi til að halda áfram þar sem við vorum búin að vera án aðstoðar í ansi langan tíma og komin 14 km frá stöðinni. Við misstum einnig einungis 400m af leiðinni. Þetta var mikill léttir en setti okkur aðeins úr jafnvægi. Leiðin frá W1 að A8 var skemmtileg en þar fórum við um gamlan línuveg meðfram miklum skógi.


Það var gott að komast hingað en hér byrjar hlaupið! Tenshi fjöllin framundan sem eru víst ein mesta hindrunin á leiðinni, eða 20km og 2000m af hækkun. Mjög tæknilega og hægfarin leið en í ótrúlegu umhverfi. Við stoppuðum heldur lengi á A8 og þar lentum við einnig í smá samskiptaörðugleikum við stöðvastjóra en hann var ekki viss um að við mættum halda áfram þar sem við misstum af A7, en eftir nokkur símtöl var það staðfest af æðsta yfirvaldinu að allt væri í góðu. Jæja, ég var allavega í mjög góðum málum, komin upp í 20. sæti kvenna sem mér fannst mjög ánægjulegt að heyra. Ekkert að mér, engin þörf til að skipta um föt eða sokka. Hins vegar hafði ég ákveðið að fara í grófbotna og léttari skó fyrir seinni hluta hlaupsins og smellti mér í Salomon Speed Cross. Þarna var “mandatory gear check” og þurfti að sýna síma, kort af leiðinni og ennisljós. Einnig var bakpokinn vigtaður líklega til að vera viss um að hlauparar væru með nægan vökva yfir erfiðasta fjallgarðinn.


Byrjunin á Tenshi fjöllunum var frekar auðveld en það átti eftir að breytast. Við mættum þremur hlaupurum sem höfðu hægt á sér vegna meiðslna en einn af þeim, Svíinn Daníel hélt áfram með okkur Sigga langleiðina upp fyrsta tindinn. Þetta var mögnuð leið eða allt í allt 6 erfiðir en ekki svo langir toppar. Niðurhlaupin voru mörg mjög strembin út af grjóti og trjárótum svo ekki sé minnst á hversu rosalega bratt þetta var á köflum. Reipin komu að góðum notum þegar ég skíðaði niður og síðan gat maður gripið í tré til að stoppa sig eða halda jafnvægi. Fáir hlupu með okkur yfir Tenshi en við fórum fram úr nokkrum og yfirleitt á leiðinni upp. Síðasta brekkan niður var líklega sú erfiðasta en hún var fáránlega brött og sleip. Ég man að ég öskraði á einn starfsmann sem var niðri við fjallið „this is f****** CRAZY“. Þetta var samt ótrúlega skemmtileg leið þó hún hafi verið sturluð á köflum. Síðan tók við 3 km á jafnsléttu að drykkjarstöð A9.


Þarna var heitt úti en alveg ískalt inni á stöðinni. Siggi náði í gasofn og ég klæddi mig úr blautum bolnum til að þurrka hann og skellti mér í jakka á meðan. Gaman að hitta Avid fólkið sem stjanaði við okkur og náði í ávexti og núðlusúpur handa okkur. Eftir dágott stopp fórum við út i hitann aftur og til í að klára seinna erfiða fjallið á leiðinni. Það var frekar langur spotti að fjallinu yfir gras og þurrkaða árfarvegi. Í fyrsta sinn í hlaupinu fór ég að finna fyrir þreytu, þ.e. augun fóru eitthvað að þyngjast. Skrokkurinn var fínn og ég reyndi því að hlaupa aðeins hraðar. Ég tók GU með koffíni sem vonandi myndi virka. Loksins komum við að fjallinu en þetta var skemmtileg og löng ganga í zigzag. Þegar við nálgumst toppinn fáum við þægilega svala golu á móti okkur. Sólin ennþá á lofti og við metum það svo að við munum komast erfiðasta hlutann og gott betur fyrir myrkur. Við komum á toppinn og þá blasir Mt. Fuji við okkur! Vááá hvað þetta var mögnuð sjón og heppin að vera akkurat á þessum stað og í birtu. Niðurleiðin var nokkuð auðveld þarna niður, allt í zigzag og þarna fann ég hvað ég átti mikinn kraft eftir í niðurhlaup og hraðari hlaup á jafnsléttu. Það borgar sig víst að fara rólega af stað og spara sig niður brekkurnar í svona hlaupum. Langur kafli á götu tók við að A10 en þar var hlaupið meðfram fallegu vatni.


Mér var mikið fagnað á A10 og var þessi stöð inni í japönsku gistiheimili. Gríðarlega flott aðstaða fyrir hlaupara. Avid fólkið alltaf pottþétt og gerði allt fyrir mig. Við reyndum að stoppa eins stutt og við gátum en þarna var ég komin í meiri keppni. Ég var komin niður í 16. sæti af konum eftir að hafa fært mig smátt og smátt framar allt hlaupið. Nú voru 30km eftir og ég var staðráðin í því að rústa þeim. Við skáluðum í Red Bull og héldum af stað mjög örugg og full af orku. Leiðin milli A10 og A11 var með þeim skemmtilegri. Þröngur og frekar tæknilegur stígur yfir fjallshrygg með nokkrum brekkum sem var þó frekar auðvelt að hlaupa. Ég hugsa að ég hafi hlaupið 99% af leiðinni héðan og alla leið í mark. Nú komu gelin sterk inn í hlaupið og ég passaði að halda orkunni vel uppi allan tímann því fæturnir áttu nóg eftir. Nú var einnig komið myrkur og ég setti upp ljósið og gat leyft mér að hafa það stillt á mjög mikla birtu því það var ekki mikið eftir af hlaupinu í tíma. Þetta voru 15 km af fjalllendi og stígum en síðan tók við 5km af malbiki. Hér voru margir að gefa eftir og hægja verulega á sér. Ég hafði skilið við Sigga á fjallinu og var farin að gefa vel í. Malbikið var bara fínt en pínu erfitt andlega. Vííiíí skilaði mér á góðum tíma á síðustu stöðina A11. Hafði hlaupið með Spánverja í dágóðan tíma en ég held að hann hafi verið í basli en hann leit út fyrir að vera að keppa fyrir eitthvað lið.  Hann hvatti mig áfram og sagði mér að stoppa stutt. Fólkið á stöðinni var mjög hjálplegt og tók myndir, einnig fékk ég góðar upplýsingur um hvernig síðasti hlutinn leit út.


Ég sendi mömmu og pabba og fleirum skilaboðin: “11,4 km í mark!! :-D” og fékk góða hvatningu til baka. Biggi Sævars sendi mér síðan fljótlega skilaboð um að ég væri komin niður í 12. sæti!! Það er ótrúleg tilfinning að vera komin svona langt, næstum 160 km og eiga nóg inni til að fara síðustu 10 km hratt og geta klárað sig vel. Þetta var frábær kafli af löngum brekkum og þægilegu hlaupi inni á milli. Ég strunsaði fram hjá mörgum mönnum og vonaði alltaf að sjá að minnsta kosti tvær konur!!! Það var ólíklegt því að það voru það margar góðar atvinnukonur að keppa um fyrstu 10 sætin. Niðurleiðin tók aðeins í og var mikið um tröppur í mjög miklum bratta. Ótrúleg sjón að horfa yfir ljósin frá Kawaguchiko í myrkrinu sem var greinilega miklu stærri en ég hélt. Hún var langt fyrir neðan og því var mikið drop eftir. Loksins komst ég niður af fjallinu og á malbikið og ég vissi að það væru núna 3-4 km eftir meðfram vatninu. Nú tók við hjá mér skemmtilegur kafli af hröðu hlaupi og náði ég að taka framúr 3 einstaklingum, þar á meðal einni konu. Það er mjög fyndið að hlaupa hratt eftir 168 km en mér fannst 5:50 vera 10 km keppnis pace! Ég náði þó að pressa niður í 5:20 á síðustu tveimur km og setti allt í botn síðustu metrana.


Mér var fagnað vel og það var hlaupastjórinn Tsuyoshi Kaburaki sjálfur sem faðmaði mig í markinu. Ég gleymdi að taka upp fánann úr bakpokanum sem ég hafði tekið á A10 en tók hann þarna upp og fékk myndir með aðalmanninum. Ég endaði í 11. sæti kvenna af þeim 119 sem kláruðu hlaupið og 108 í heildina á tímanum 31 klst. og 34 mínútur, en um 1500 hlauparar voru skráðir til leiks. Ég ætlaði ekki að trúa því og það var langt út fyrir allar bestu væntingar. Það var einnig ótrúleg tilfinning bara að klára þetta og gera það án allra vandræða. Ég knúsaði Avid fólkið sem hjálpaði mér á gistiheimilið við markið þar sem ég gat farið í sturtu og í hvíldarherbergi. Stuttu síðar kom Siggi í markið og hann leit vel út.

Ég náði að sofa vel um nóttina en var vöknuð snemma. Líkaminn í góðu standi og engir áverkar nema nokkrar rispur og skafsár. Er eðlilegt að vilja fara aftur strax eftir hlaup?? Þetta var mitt besta hlaup hingað til og líklega vegna þess að ég var skynsöm frá upphafi til enda, staðráðin í því að klára og leit á allt annað sem bónus. Veðrið var gott og náttúran stórfengleg alla leiðina. Næst myndi ég vera enn skipulagðari á drykkjarstöðvunum og ætti að geta sparað amk. klukkutíma í stoppum.


Æfingarnar í vetur gengu gríðarlega vel og fékk ég góð prógröm frá þjálfara mínum Andy sem fann ýmsar leiðir til að æfa sérhæft inni og í íslenskum vetraraðstæðum. Ég fór vel með mig og fékk góð ráð frá sjúkraþjálfurunum Gauta og Gunnari hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur. Mataræðið spilaði einnig stóran þátt í undirbúningnum og passaði ég mig að borða alltaf vel eftir æfingarnar.

12 views0 comments